Stuttir pistlar

May. 8, 2015

 

Eitt það raunverulegasta í lífinu eru tilfinningar og upplifanir. Við erum alla ævi að fást við það hvernig okkur líður og hvernig okkur finnst þetta eða hitt og hvað við viljum vera að gera og hvað við viljum ekki.

Því miður er kvíði, stress og fleiri leiðinda fyrirbæri alltof algeng og stundum virðist ómögulegt að losna við þetta.

Mig langar að setja fram samlíkingu, sem því miður er ekki smekkleg, en lýsir viðfangsefninu sérstaklega vel.

 

Kvíði er eins og kúkur í klósetti.

 

Það er ekki hægt að einbeita sér að honum og losna við hann þannig að allt verið gott. Því þó að það takist nokkurn veginn, verður alltaf eitthvað eftir.

Þess vegna þarf einfaldlega að sturta niður.

 

Og hvað þýðir það?

 

Þá látum við eitthvað hreint og tært flæða og fylla. Það er ekki beint verið að losna við heldur gera allt aftur skínandi tært.

 

Þannig þarf ekki að reyna að losa um kvíðahnútinn í maganum, heldur þarf að fylla líkaman af sjálfsöryggi.

Það þarf ekki að flétta sundur áhyggjuvöndlinum, heldur koma sér tryggilega fyrir í sjálfstrausti.

Það þarf ekki að tálga utan af stressinu, heldur þarf að finna framvindu lífsins bera okkur áfram eins og brimbrettakappa á öldu.

 

Þannig fyllum við okkur af sterkum, kærleiksríkum tilfinningum sem skola hinum síðri út, þannig að við tökum varla eftir því.

 

 

Kær kveðja

Þormóður Símonarson

 

May. 1, 2015

 

Það er fátt einfaldara en prufutími í markþjálfun hjá mér. Þú hefur samband og við finnum lausan tíma sem hentar báðum.

Þegar kemur að tímanum hringi ég í þig og við tölum saman í allt að klukkutíma.

Oft nægir mun styttri tími því þetta er mjög árangursríkt og fólki finnst oft passlegt að nota bara hálftíma.

 

Heyrumst

Þormóður Símonarson

Apr. 13, 2015

 

Eitt af því sem ég aðstoða fólk við, eru bætt samskipti. Við erum allan daginn í samskiptum við vini og kunningja, fjölskyldu og ókunnuga og það hvernig við högum samskiptum okkar hefur mjög mikil áhrif á okkur. Þegar samskipti okkar og samtöl eru upp á sitt besta verður dagurinn gleðiríkari, ánægulegri, kærleiksríkari og við upplifum meiri hamingju. En ef allt er eins og það á ekki að vera rífa samskipti okkur niður og dagurinn þróast úr slæmum í afleitan.

Þau samskipti sem hafa venjulega mest áhrif á okkur eru við fólkið sem okkur finnst vænst um en vinnufélagar fylgja þeim oft fast á hæla.

Ef hópurinn þinn (fjölskylda, vinir, saumaklúbbur, veiðiklúbbur eða vinnufélagar) stríðir við sérsakt vandamál (ég kalla það reyndar úrlausnarefni) býð ég uppá hópsamtal þar sem við finnum saman lausnir sem henta. Einnig er hægt að skoða það sem gott og gera það enn betra, hvernig væri hópurinn ef það væri meiri vinátta, virðing, samheldni eða hjálpsemi?

Ef það er eitthvert úrlausnarefni í sambandinu ykkar þá getið þið unnið úr því hjá mér, best er að báðir aðilar komi en það er ekki alltaf nauðsynlegt.

Ein góð leið að bættum samskiptum er að spyrja sig hvers vegna. Þegar þú segir eða gerir eitthvað, spyrðu þá sjálfa/sjálfan þig, Hvers vegna var ég að þessu? (þetta á sérstaklega við ef þú veldur uppnámi eða særir viðkomandi).

Þú getur líka spurt; Var ég að reyna að sýna væntumþykju/vináttu? Var ég að reyna að láta henni/honum líða betur? Var ég að reyna að hjálpa honum/henni að sjá hversu frábær mér finnst hann/hún? Var ég að hjálpa henni/honum að vaxa og dafna?

Ef svarið er ekki það sem þú vildir helst, spyrðu þá aðeins betur, Hvers vegna?

Þessi leið er ágæt til að skoða sjálfur/sjálf hvernig við erum í gerðinni. Ef ykkur langar að prófa þessa leið saman og orða spurningarnar og svörin, mæli ég með því að skapa fyrst rými sem er laust við dómhörku en fullt af virðingu, forvitni og væntumþykju.

 

Vertu viss um að þú getur mikið meira en þú heldur.

Bestu kveðjur

Þormóður Símonarson

Apr. 2, 2015

 

Við erum þannig gerð að hugurinn og undirmeðvitundin virkar einna best þegar nýungar eru kynntar á táknrænan hátt.

Þess vegna er oft svo áhrifaríkt að skrifa á blað það sem við viljum losna frá og brenna svo blaðið (það verður auðvitað að fara varlega með eld).

Einnig er ágætt að nýta vorhreingerninguna til að losa um gömul mynstur. Það er hægt að gera með því að segja upphátt ,,Ég losa mig við gamlar hugmyndir sem passa mér ekki lengur'' um leið við tökum til í fataskápnum.

 

En það er hægt að innleiða nýja siði og ávana án þess að fylla skápinn af nýjum flíkum.

Núna í vor, frá miðjum apríl og þangað til í byrjun júní, mun ég bjóða upp á skógræktar-markþjálfun. Þá kemurðu og við plöntum trjágræðlingum (hugmyndum og siðum) og gætum þess að hafa frjóan jarðveg til að árangurinn sé sem bestur. Þetta verða einkatímar þar sem samtalið og hreyfingin verða í jafnvægi.

Ef þú ert aktíf týpa og kannt að meta útiveru er þetta gullið tækifæri til að nota hreint sveitaloft og hreyfingu til að sjá hverju þú vilt breyta og hvernig þú vilt hafa hlutina.

 

Bestu kveðjur

Þormóður Símonarson

Mar. 22, 2015

Að upplifa nánd með annari manneskju er eitthvað sem að flestir þekkja, sem betur fer.

Eitt dæmi er samband milli foreldra og kornabarna. Lítil börn leyfa okkur að upplifa skilyrðislausa ást, ásamt þeirri tilfinningu að önnur mannvera er eins og framlenging af okkur sjálfum.

Þegar afmælisdögum barnsins fer að fjölga stríkkar á þessari nánu tenginu, einn daginn flytur barnið að heiman og eignast sitt eigið líf en hringir vonandi reglulega.

 

Það er annað samband í lífi okkar sem getur hæglega orðið mjög náið.

Þegar við hittum aðra manneskju með lík áhugamál, markmið og gildi, getur verið að við séum að kynnast maka okkar.

Þetta er manneskja sem býr annars staðar, á sitt eigið líf en hringir oftar og oftar. Flytur svo inn og ef rétt er haldið á spilunum upplifum við það undur að þessi manneskja sem einu sinni var ókunnug er orðin eins og framlenging af okkur sjálfum og við finnum skilyrðislausa ást.

 

En hvað þarf til? Það þarf einlægni og vilja til að laga það sem aflaga fer.

 

Eftirfarandi samtal þarf að geta átt sér stað:

Fyrirgefðu hvernig ég lét við þig í morgun, ég var bara óöruggur með mig út af því sem þú sagðir um Halla bróðir í gærkvöldi.

Ég meinti ekkert með því, ég var bara búin að eiga ömurlegan dag í vinnunni og varla fengið ætan bita allan daginn þegar Halli kom og var að tala um fyrstu grillveislu vorsins um páskana.

 

 

Þannig er einlægni og heiðarleiki mikilvægur þáttur í að komast nær maka sínum.

Ef þið viljið prófa netsamtal við mig er það velkomið. Hlutlaus utanaðkomandi aðili getur breytt öllu og komið fólki á rétta braut, hvort sem verkefnið er að bæta erfiða stöðu eða gera góða hluti enn betri.

Kveðja

Þormóður Símonarson