Apr. 13, 2015

Góð leið að bættum samskiptum

 

Eitt af því sem ég aðstoða fólk við, eru bætt samskipti. Við erum allan daginn í samskiptum við vini og kunningja, fjölskyldu og ókunnuga og það hvernig við högum samskiptum okkar hefur mjög mikil áhrif á okkur. Þegar samskipti okkar og samtöl eru upp á sitt besta verður dagurinn gleðiríkari, ánægulegri, kærleiksríkari og við upplifum meiri hamingju. En ef allt er eins og það á ekki að vera rífa samskipti okkur niður og dagurinn þróast úr slæmum í afleitan.

Þau samskipti sem hafa venjulega mest áhrif á okkur eru við fólkið sem okkur finnst vænst um en vinnufélagar fylgja þeim oft fast á hæla.

Ef hópurinn þinn (fjölskylda, vinir, saumaklúbbur, veiðiklúbbur eða vinnufélagar) stríðir við sérsakt vandamál (ég kalla það reyndar úrlausnarefni) býð ég uppá hópsamtal þar sem við finnum saman lausnir sem henta. Einnig er hægt að skoða það sem gott og gera það enn betra, hvernig væri hópurinn ef það væri meiri vinátta, virðing, samheldni eða hjálpsemi?

Ef það er eitthvert úrlausnarefni í sambandinu ykkar þá getið þið unnið úr því hjá mér, best er að báðir aðilar komi en það er ekki alltaf nauðsynlegt.

Ein góð leið að bættum samskiptum er að spyrja sig hvers vegna. Þegar þú segir eða gerir eitthvað, spyrðu þá sjálfa/sjálfan þig, Hvers vegna var ég að þessu? (þetta á sérstaklega við ef þú veldur uppnámi eða særir viðkomandi).

Þú getur líka spurt; Var ég að reyna að sýna væntumþykju/vináttu? Var ég að reyna að láta henni/honum líða betur? Var ég að reyna að hjálpa honum/henni að sjá hversu frábær mér finnst hann/hún? Var ég að hjálpa henni/honum að vaxa og dafna?

Ef svarið er ekki það sem þú vildir helst, spyrðu þá aðeins betur, Hvers vegna?

Þessi leið er ágæt til að skoða sjálfur/sjálf hvernig við erum í gerðinni. Ef ykkur langar að prófa þessa leið saman og orða spurningarnar og svörin, mæli ég með því að skapa fyrst rými sem er laust við dómhörku en fullt af virðingu, forvitni og væntumþykju.

 

Vertu viss um að þú getur mikið meira en þú heldur.

Bestu kveðjur

Þormóður Símonarson